Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning Símans hf. og dótturfélaga hans, samanber skýringu 13, fyrir árið 2015.

Rekstur ársins 2015

Á aðalfundi félagsins þann 16. apríl 2015 var samþykkt að sameina rekstur móðurfélags samstæðunnar Skipti hf. og dótturfélags þess,Síminn hf., undir kennitölu Skipta hf. frá 1. janúar 2015. Samhliða samruna félaganna var nafni móðurfélagsins breytt í Síminn hf. Skjárinn ehf. var einnig sameinaður Símanum hf. frá og með 1. janúar 2015. Sameiningar þessar hafa engin áhrif á fjárhæðir í reikningsskilum samstæðunnar. Upplýsingatæknirekstur Símans hf. var færður til dótturfélags Símans hf., Sensa ehf. í upphafi árs. Þá var upplýsingatæknifyrirtækið Basis ehf. keypt og sameinað Sensa ehf. til að styrkja upplýsingatæknirekstur félagsins. Á síðastliðnu ári hóf stjórn félagsins undirbúning að skráningu á markað. Þann 15. október voru bréf félagsins tekin til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Kostnaður við skráningu nam 145 m.kr. Arion banki hf. seldi 21% af hlut sínum í Símanum hf. í almennu útboði við skráningu.

Heildarsala samstæðunnar á árinu var 30.407 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi samanborið við 30.322 m.kr. á árinu 2014. Hagnaður var af rekstri samstæðunnar sem nam 2.875 m.kr. samanborið við hagnað að fjárhæð 3.274 m.kr. á árinu 2014. Eignir samstæðunnar námu 62.127 m. kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Eigið fé nam 32.802 m.kr. og var eiginfjárhlutfallið 52,8%. Að öðru leyti vísast til ársreiknings um breytingar á eigin fé samstæðunnar.

Hlutafé og samþykktir

Hlutafé í árslok skiptist á 2.783 hluthafa en þeir voru 133 í ársbyrjun. 10 stærstu hluthafar félagsins eru:

Nafnverð hlutafjárí m.kr.
Eignar hlutur
Lífeyrissjóður verslunarmanna 1.377 14,27%
Gildi - lífeyrissjóður 789 8,18%
Lífeyrissjóður starfsm. ríkisins A-deild 735 7,62%
Arion banki hf. 644 6,68%
A.C.S safnreikningur I 557 5,77%
L1088 ehf. 483 5,00%
Stefnir - ÍS 15 377 3,91%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 329 3,41%
Lífeyrissj.starfsm.rík. B-deild 268 2,77%
Lífsverk lífeyrissjóður 262 2,72%
Tíu stærstu hluthafar samtals 5.821 60,32%
Aðrir hluthafar 3.829 39,68%
Hlutafé samtals 9.650 100,00%


Stjórn félagsins leggur til að 20% af hagnaði ársins, 575 m.kr. verði greidd út sem arður á árinu 2016 vegna ársins 2015. Þá leggur stjórn félagsins einnig til að farið verði í framkvæmd endurkaupaáætlunar á hlutabréfum í félaginu fyrir fjárhæð sem nemur allt að 30% af hagnaði félagsins á árinu 2015.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn Símans hf. leggur áherslu á að viðhalda góðum stjórnarháttum og að fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint sem og verksvið gagnvart forstjóra. Félagið er með skráð verðbréf í Kauphöll Íslands hf. og ber því að fylgja leiðbeiningum um stjórnarhætti samkvæmt reglum Kauphallarinnar sem hægt er að nálgast á vef hennar.

Síminn hf. hlaut á árinu viðurkenningu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin byggir á nákvæmri úttekt á starfsháttum stjórnar og stjórnenda Símans hf. sem unnin var af Cató lögmönnum í júní 2015.

Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna í kaflanum stjórnarháttaryfirlýsing sem er fylgiskjal með ársreikningnum.

Yfirlýsing stjórnar og forstjóra

Samkvæmt bestu vitneskju stjórnar og forstjóra er ársreikningur samstæðunnar í samræmi við alþjóðlega reikningskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu. Er það álit stjórnar og forstjóra að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstrarafkomu samstæðunnar á árinu 2015, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hennar 31. desember 2015 og breytingu á handbæru fé á árinu 2015. Jafnframt er það álit stjórnar og forstjóra að samstæðuársreikningurinn gefi glöggt yfirlit um þróun og árangur í rekstri samstæðunnar og stöðu hennar og lýsi helstu áhættuþáttum og óvissu sem samstæðan býr við.

Stjórn og forstjóri Símans hf. hafa í dag fjallað um samstæðuársreikning félagsins fyrir árið 2015 og staðfesta hann með undirritun sinni. Stjórn og forstjóri leggja til við aðalfund félagsins að samþykkja ársreikninginn.

Reykjavík, 18. febrúar 2016