Stöðugur rekstur

Símans

Stöðugur rekstur

Símans

Óskar Hauksson fjármálastjóri

„Engin lognmolla var innan Símans á árinu 2015 þrátt fyrir stöðugan rekstur. Síminn er vel settur fyrir framtíðina og afkoma ársins í takt við spár sem hann birti við skráningu í október.“

Stöðugleiki einkennir fyrsta uppgjör Símans eftir skráningu á markað. Skuldir lækka og tekjur hækka lítillega á milli ára. Hagnaður dróst saman en var svipaður á milli ára, sé horft framhjá söluhagnaði ársins 2014, og eiginfjárgrunnur styrktist. „Engin lognmolla var innan Símans á árinu 2015 þrátt fyrir stöðugan rekstur. Samruni Skipta, Símans og Skjásins gekk í gegn. Við skráðum félagið. Við hagræddum í yfirstjórnarkostnaði og gerðum breytingar á vöruframboði sem styrkja okkur til framtíðar. Síminn er vel settur fyrir framtíðina og afkoma ársins í takt við spár sem hann birti við skráningu í október,“ segir Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, þegar hann lítur yfir árið 2015. „Við höfum heimsklassa fjarskiptafélag í höndunum sé litið til þjónustugæða og vöruframboðs. Árið 2015 skilaði okkur straumlínulagaðra félagi inn í árið 2016.“

Kom einhver kostnaðarþáttur á óvart í þessum miklu breytingum á árinu?

„Ekkert kom á óvart á kostnaðarhliðinni og við skiluðum uppgjöri innan þeirra marka sem stefnt var að. Helsta ástæða þess að við erum við neðri mörk uppgjörsspár er að á brattann var að sækja á farsímamarkaði. Hins vegar höfum við þegar gert ráðstafanir til að bregðast við, til að mynda kynnt Þrennuna til leiks. Við sjáum að hún höfðar til yngri markhópsins,“ segir Óskar en að aðrir þættir muni vissulega tryggja enn frekar árangur Símans í rekstri.

„Við gerðum góða samninga við lykilbirgja á síðasta ári og sjáum að þeir, ásamt þeim aðgerðum sem gripið var til skila félaginu á bilinu 700 til 800 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli. Þá erum við í viðræðum við lánveitendur um hagstæðari kjör og búumst við lækkun vaxtakostnaðar og að fjármögnun félagsins verði sveigjanlegri.“

Þó megi nefna að svokallað SALEK samkomulag valdi áhyggjum. „Það kom okkur á óvart hve mikið nýgerðum kjarasamningum var breytt. Viðbótarkostnaður Símans vegna SALEK verður að öllu óbreyttu 250 milljónir á árinu 2016. Svo er samkeppnin afar hörð, en við erum tilbúin í þann slag og munum skerpa á kostnaðarhliðinni og sækja fram að krafti.“

Síminn greiðir 20% hagnaðar í arð. Eru það upphæðir sem búast má við í framtíðinni?

„Við höldum okkur við arðgreiðslustefnuna sem sett hefur verið og segir að við hyggjumst greiða hluthöfum árlega arð og/eða ráðast í endurkaup sem nemur 20-50% af hagnaði eftir skatta í samræmi við lög og reglur hverju sinni,“ segir Óskar. „Við erum að greiða 20% af hagnaði í arð og ætlum einnig að framkvæma endurkaup sem nema 30% af hagnaði ársins 2015. Þannig erum við að fara í efri mörk arðgreiðslustefnunnar að þessu sinni. Við lækkuðum einnig skuldir á árinu og eigum mikið laust fé. Við ætlum að nýta það með skynsömum hætti til hagsbóta fyrir hluthafa okkar. Arðreiðslan nú er fyrsta skrefið í mótun okkar á arðgreiðslustefnu til framtíðar.“

Heilt yfir segir Óskar árið 2015 hafa gengið vel. Hann er sáttur enda hafi árið styrkt stöðu Símans til framtíðar. „Við höfum hagað rekstrinum þannig að við eigum mikla möguleika til að sækja fram.“