Síminn skapar

ný tækifæri til framtíðar

Síminn skapar ný

tækifæri til framtíðar

Sigríður Hrólfsdóttir stjórnarformaður

„Metnaður Símans þegar kemur að fjarskiptum styrkir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Síminn á ríkan þátt í því að Ísland er í þriðja sæti á heimsvísu þegar kemur að upplýsingatækni og fjarskiptum og það þrátt fyrir strjálbýlið.“

„Fjarskipti eru alltumlykjandi í nútímasamfélagi. Þau hafa skapað tækifæri sem fáa óraði fyrir. Það er erfitt að ímynda sér viðskiptalíf án nútíma samskipta. Þau fyrirtæki sem ná að beisla krafta netsins skara fram úr. Síminn skapar þessi tækifæri um leið og hann horfir sjálfur til þeirra sem vert er að grípa,“ segir Sigríður Hrólfsdóttir, stjórnarformaður Símans.

„Viðskiptavinir Símans hafa breytt notkun sinni síðustu misseri. Við sjáum hvernig gagnanotkun hefur rokið upp eftir því sem afþreying færist í meira mæli á netið. Á sama tíma hefur þörfin fyrir vörur sem áður drifu tekjur Símans minnkað ár frá ári. Með því að færa viðskiptavinum heimasímann yfir netið hefur hægst á brottfalli úr þjónustunni,“ segir Sigríður og að þannig vinni Síminn. „Hann leitar nýrra tækifæra um leið og hann verndar kjarnastarfsemina með auknu virði fyrir viðskiptavini sína.“

Tímamót urðu á árinu 2015 þegar Síminn var skráður á markað. Sigríður bendir á að skráningin sé lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. „Félagið stendur sterkt nú þegar reksturinn hefur verið endurskipulagður með sameiningu Símans, Skipta og Skjásins. Einnig var rekstur upplýsingatækni sameinaður undir merkjum Sensa og hefur það gefið góða raun,“ segir Sigríður.

Hver er stefna samstæðunnar?

Sigríður segir umhverfi Símans krefjandi. Fjarskiptafélög geti ekki gengið að vexti í hefðbundnum tekjum fjarskiptafélaga vísum. Þá hafi samkeppnin harðnað. Síminn horfi því afar gagnrýnum augum í rekstrarkostnaðinn um leið og hann leiti nýrra tækifæri í vörum tengdum fjarskiptatækninni. „Vöxtur Símans á afþreyingamarkaði, viðskiptasamband við Spotify og möguleikar fjarskipta þegar kemur að lífsstíl og heilbrigði eru því afar áhugaverð leið til að auka tekjur og möguleika til framtíðar.“

Vöruframboð í fjarskiptum breytist hratt bæði í farsíma og gagnaflutningum. Meira er um pakka þar sem viðskiptavinurinn greiðir eitt verð fyrir fjölbreyttari þjónustu. Sjónvarp Símans er eitt helsta stolt samstæðunnar og efldist það mjög á árinu þegar SkjárEinn varð að einni öflugustu gagnvirku efnisveitu landsins.

Sigríður bendir á að ekkert fjarskiptafélag fjárfesti á við Símann hér á landi. „Á hverjum einasta degi síðasta árs lagði hann að jafnaði tæpar þrettán milljónir í innviði sína – samtals 4,7 milljarðar króna. Metnaður Símans þegar kemur að fjarskiptum styrkir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Síminn á ríkan þátt í því að Ísland er í þriðja sæti á heimsvísu þegar kemur að upplýsingatækni og fjarskiptum og það þrátt fyrir strjálbýlið.“

Hún bendir á að fjarskiptageirinn sé afar reglustýrður en sé fagmannlega unnið á öllum vígstöðvum, innan hans og hjá yfirvöldum eigi allir vegir að vera færir. „Miklu skiptir að regluverk í kringum fjarskipti hindri ekki framþróun og sé í samræmi við það sem erlendir keppinautar undirgangast. Símanum er mikið í mun að ástunda heilbrigða starfshætti og vera samfélagslega ábyrgur um leið og hann þróast á þeim hraða sem fjarskiptin leyfa. Það er því nauðsynlegt að Síminn sitji ekki eftir í samkeppni, eins og til að mynda við erlendar efnisveitur, á meðan yfirvöld leitast við að tryggja samkeppni á innlendum fjarskiptamarkaði. Netið er alþjóðlegt. Leikvöllurinn á að taka mið af því.“

Hvers virði er fyrir Símann að vera skráð félag á markaði?

Sigríður segir að stjórn Símans fagni þeim áfanga sem félagið náði með skráningu í kauphöll. „Stigið var mikilvægt skref til framtíðar. Hluthöfum fjölgaði þennan skráningardag um þúsundir. Sigríður segir að það gagnsæi og aðhald sem markaðurinn veiti Símanum sem skráðu félagi sé helsti kostur skráningarinnar. Þá styrki það Símann hve margir starfsmenn hafi ákveðið að nýta sér valrétti sem buðust í aðdraganda skráningar.

„Stjórnin stendur stolt með þeirri ákvörðun. Valréttirnir gera félagið að framúrskarandi vinnustað og auka líkurnar á því að félaginu gangi vel á markaði, sem er starfsmönnum, viðskiptavinum og hluthöfum til hagsbóta,“ segir hún.

Um leið og ég þakka starfsfólki, stjórnendum og samstarfsfólki mínu í stjórninni fyrir samhent störf í aðdraganda skráningarinnar vil ég segja að árið 2015 hafi verið ár breytinga innan Símans. Það sást á rekstraruppgjörinu. Breytingar taka athyglina inn á við. Nú getur Síminn enn frekar beint kröfum sínum að þjónustuhlutverkinu og einbeitt sér að árangri í rekstri.

Sigríður segir það markmið stjórnar að styðja við enn frekari árangur á markaði. „Eftir annasamt breytingaár er félagið vel í stakk búið til að takast á við krefjandi verkefni. Stjórn Símans er ánægð með þau auknu tækifæri sem í því felst fyrir Símann að vera skráður á markað.“