Rekstur á

traustum grunni

Rekstur á

traustum grunni

Orri Hauksson forstjóri

„Tækninýjungar og breytingar innan fjarskipta gerast hratt og ekki alltaf á tímapunkti sem hægt er að fastsetja fyrirfram. Því er mikilvægt að hafa skýran fókus til lengri tíma, með viðskiptavininn í forgrunni.“

„Við erum stödd í miðri byltingu. Tæknibyltingu og breyttu hegðunarmynstri. Fólk hefur allt öðruvísi samskipti en fyrr, sérstaklega ungt fólk. Gagnanotkun næstum tvöfaldast milli ára, ár eftir ár, en símtækið er notað minna en fyrr til að tala í það. Enginn vill þó vera án möguleikans að geta talað í símann. Hjá okkar fyrirtæki sker árið 2015 sig á margan hátt úr þegar litið er til þróunar fjarskipta og áherslna innan Símans. Samstæðan tvöfaldaði hraða Ljósnetsins, stækkaði ljósleiðaraframboð sitt og náði til 89% heimila með 4G kerfi sínu. Síminn opnaði sjónvarpsstöðina SkjáEinn fyrir öllum landsmönnum en bauð viðskiptavinum þess í stað áskrift að öflugustu íslensku efnisveitunni sem er til; gagnvirku þjónustunni SkjáEinum hjá Símanum. Síminn hélt góðri stöðu sinni á netmarkaði og styrkti stöðu sína þegar kemur að upplýsingatækni. Við kynntum Heimilispakkann til leiks, þar sem fjarskiptum og afþreyingu er blandað saman, afar hugvitsamlega að mínu mati. Árið 2015 vörðum við drjúgum tíma í að undirbúa Símann á markað, en skráning í Kauphöll varð að veruleika á seinna hluta ársins.“ Þetta segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Á árinu 2015 harðnaði samkeppnin á fjarskiptamarkaðnum. Þetta er árið þar sem Síminn lagði sig í líma við að styrkja aðgreiningu sína á markaði. Þá er fagnaðarefni að mælingar sýna að viðskiptavinir Símans hafa ekki áður gefið eins háa einkunn fyrir þjónustuna þegar þeir sækja Símann heim.“

Skipti, Síminn og Skjárinn sameinuðust á síðasta ári og upplýsingatæknisvið Símans var fært undir dótturfélagið Sensa. Orri segir að breytingar síðustu misseri auki burði þess til að sækja fram á hörðum samkeppnismarkaði.

„Vöruframboði samstæðunnar hefur verið breytt og fókusinn stilltur. Vert er að hafa í huga að gagnger umsnúningur hefur orðið á rekstrarfyrirkomulagi félagsins frá fjárhagslegri endurskipulagningu þess. Árið 2014 var það fyrsta frá fjármálakrísunni þar sem félagið skilaði hagnaði. Árið 2015 einkenndist af endurskipulagningu en ljóst er að rekstur Símans stendur traustum fótum. Sífellt aðhald er nauðsynlegt, það er ekki annað í boði en halda áfram að finna sífellt nýjar leiðir að hagkvæmari rekstri.“

Hver var helsti árangur ársins?

Orri nefnir nokkur atriði. Fjölmargt starfsfólk samstæðunnar hafi einbeitt sér að því að straumlínulaga fyrirkomulag hennar. Í upplýsingatækni hafi sterkustu mögulegu liðsheild samstæðunnar verið stillt upp innan Sensa auk þess sem uppskera sameiningar Skjásins og Símans hafi verið góð.

„Með því að fella þessar einingar saman nýtast betur starfskraftar og þekking innanhúss, sem aftur styrkir aðgreiningu Símasamstæðunnar á þeim mörkuðum sem hún starfar. Sölu- og þjónustudeildir Sensa og Símans vinnan nú á fyrirtækjamarkaði – hvor á sínu sviði og saman – við að veita kröfuhörðum viðskiptavinum sínum markvissa þjónustu. Aðgreiningin á einstaklingsmarkaði sést svo best á Heimilispakkanum þar sem fjölskyldum er boðið net, IP-sími og afþreying í einum frábærum pakka. Afþreyingin er römmuð inn með einum markverðasta samningi sem SkjárEinn hefur gert, en hann tryggði sér í fyrra samning til þriggja ára við eitt stærsta kvikmyndaver í heimi, 20th Century Fox.“

Orri segir að sum umbreytingaverkefni síðasta árs hafi leitt til tímabundinnar tekjulækkunar og kostnaðarauka til skamms tíma. „Síminn kynnti til að mynda gagnvirka áskriftarþjónustu síðastliðið haust, SkjáEinn hjá Símanum. Ákvörðunin var tekin til að mæta samkeppni erlendra efnisveitna og þörf fyrir áskrift að myndefni eftir pöntun, svokölluðu ólínulegu efni. Ráðist var í þessar breytingar þótt ljóst væri að heildartekjurnar lækkuðu tímabundið. Nú, einungis fimm mánuðum seinna, eru fleiri áskrifendur að SkjáEinum hjá Símanum en voru í áskrift að sjónvarpsstöðinni, sem nú er í opinni dagskrá á landsvísu. Með þessu nýja fyrirkomulagi er tekið frumkvæði á Íslandi í breyttu sjónvarpsáhorfi. Með þessari ólínulegu áskriftarþjónustu er nú kominn grundvöllur fyrir Símann að taka þátt í framleiðslu hágæða íslensks afþreyingarefnis og talsetningu fyrirmyndar barnaefnis á íslensku fyrir börn á máltökualdri.“

Ertu ánægður með árið 2015 og hvert stefnir á árinu 2016?

„Staðan er viðunandi. Síminn nýtur nú bættra kjara hjá lykilbirgjum eftir að samvinna við þá var aukin og samningar endurnýjaðir. Síminn gerði til að mynda nýjan fimm ára samstarfssamning við Ericsson um frekari útbreiðslu og öflugra farsímanet Símans. Samstarfið við Ericsson hefur verið heillaríkt í gegnum árin og fögnum við að geta áfram byggt upp farsímaþjónustu á heimsmælikvarða, nú á hagstæðari máta en fyrr.“

Orri nefnir einnig að enn verði dregið úr kostnaði á árinu 2016. Til að mynda lækki kostnaður við leigu þegar um 4.000 fermetrum verður skilað til leigusalans. Eins hafi starfsmönnum Símans fækkað nokkuð á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

„Rekstur Símans er í takt við okkar væntingar. Eigið fé jókst, skuldir lækkuðu og félagið er vel í stakk búið til að uppfylla stefnu sína um greiðslu arðs og endurkaup bréfa. Breytingarnar í rekstrinum og í umhverfinu eru hraðar, ógnirnar eru margvíslegar en tekjurnar skila sér og eru stöðugar milli ára. Harðnandi samkeppni og fyrirséðar hundraða milljóna króna kostnaðarhækkanir samstæðunnar vegna SALEK-samkomulags á vinnumarkaði valda því að skerpa þarf enn frekar á rekstrinum, hraðar en búast mátti við, til hagsbóta fyrir viðskiptavini og hluthafa. Það er helsta verkefni okkar á þessu ári,“ segir Orri.

„Við leggjum okkur sem fyrr fram um þróa réttu vöruna og samsetninguna. Það er aðeins einn endanlegur dómari; viðskiptavinurinn. Við viljum gera allt til að hans dómur falli okkur í vil. Tækninýjungar og breytingar innan fjarskipta gerast hratt og ekki alltaf á tímapunkti sem hægt er að fastsetja fyrirfram. Því er mikilvægt að hafa skýran fókus til lengri tíma, með viðskiptavininn í forgrunni.“