Í stuttu máli

527.787

Fjöldi hringinga í þjónustuverið var ríflega hálf milljón á árinu 2015.

473

Nærri fimm hundruð ræddu við Söluráðgjöf Símans á hverjum virkum degi á árinu 2015.

48%

Um helmingur allra eru með 4G síma á kerfum Símans en um 80% með snjallsíma.

Síminn fagnar á árinu 2016 sínu 110. starfsári. Hann á djúpar rætur í íslensku samfélagi og er eitt reynsluríkasta fyrirtæki landsins. Starfsemin snertir tugþúsundir landsmanna á hverjum degi þegar þeir hafa samskipti í gegnum fjarskiptanet hans.

Síminn gerir viðskiptavinum sínum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, mögulegt að hafa samskipti á einfaldan, hagkvæman og umhverfisvænan hátt á hverjum einasta degi. Hann eflir samskipti og afþreyingu með fjarskiptum.

Síminn og Skipti sameinuðust í ársbyrjun 2015 og varð Síminn þá í senn rekstrarfélag á sviði fjarskipta og eigandi annarra félaga innan samstæðunnar.

Félagið býður fjarskiptakerfi í fremstu röð sem nær til alls landsins og er í fararbroddi með nýjungar á síkvikum markaði. Síminn er ekki einungis í hörkusamkeppni á smásölumarkaði á sviði fjarskipta heldur gerir þessa samkeppni enn áhugaverðari en ella með því að reka heildsölu sem skiptir við marga helstu keppinauta félagsins á smásölumarkaði.

Forstjóri Símans er Orri Hauksson.


Framkvæmdastjórn Símans

Starfsemi Símans skiptist í fjögur svið sem heyra undir forstjóra fyrirtækisins, Orra Hauksson. Hann hefur leitt samstæðuna frá árinu 2013 en var áður framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann hefur víðtæka starfsreynslu hér á landi og erlendis, lærði Executive Education í Harvard Business School 2010-2012, er með MBA gráðu frá Harvard Business School 2002 og B.Sc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 1995.

Birna Ósk Einarsdóttir

Sala og þjónusta

Birna Ósk Einarsdóttir stýrir Sölu- og þjónustusviði Símans, sem viðheldur og styrkir samband við viðskiptavini Símans á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Eitt af lykilmarkmiðum sviðsins er að sem flest mál séu leyst í fyrstu snertingu óháð snertileið. Á sviðinu er 251 stöðugildi.

Birna hefur verið framkvæmdastjóri hjá Símanum síðustu fimm ár. Hún hóf störf fyrir fimmtán árum hjá Símanum, þá í almannatengslum. Hún starfaði að mannauðsmálum í þrjú ár. Hún var forstöðumaður Verkefnastofu á árunum 2006 til 2010 og stýrði samhliða markaðsmálum 2009-2010. Birna lauk AMP frá IESE 2015, er með M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá HÍ og B.Sc. í viðskiptafræði frá HR.

Magnús Ragnarsson

Miðlun og markaðir

Magnús Ragnarsson stýrir Miðlun og mörkuðum en sviðið er ábyrgt fyrir þróun og stýringu á vöruframboði Símans, annast allt markaðsstarf og sölu auglýsinga, dagskrá ljósvaka Símans og stillir fram dagskrá allra fjölmiðla. Innan sviðsins starfa 39.

Magnús hefur síðustu tvö ár verið framkvæmdastjóri hjá Símanum. Á annan áratug hefur hann að mestu starfað í rekstri og vöruþróun á sviði tækni og afþreyingar. Áður var hann framkvæmdastjóri Gogogic, tölvuleikjafyrirtækis sem smíðaði leiki fyrir samfélagsmiðla og snjallsíma. Áratuginn þar á undan var hann meðal annars framkvæmdastjóri Latabæjar og SkjásEins. Hann er menntaður leikari frá New York og MBA frá Háskóla Íslands.

Eric Figueras

Tæknisvið

Eric Figueras er framkvæmdastjóri Tæknisviðs sem ber ábyrgð á uppbyggingu, þróun og rekstri á tæknilegu umhverfi Símans; farsímakerfi, talsímakerfi og kerfavöktun. Þar liggur öll tæknilega þróun og rekstur á Sjónvarpi Símans, SkjáBíó, SkjáEinum, K100,5 og Retró. Innan þess er Heildsala Símans. Á Tæknisviði eru 153 stöðugildi.

Eric hefur yfirgripsmikla reynslu af fjarskiptamarkaði og hefur starfað við fjarskipti og upplýsingatækni undanfarna tvo áratugi, í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum auk Íslands. Hann starfaði hjá Símanum á árunum 1998-2004. Eric er með MSc gráðu í verkfræði frá háskólanum Universidad Politécnica de Catalunya (UPC) í Barcelona með fjarskipti sem aðalgrein. Hann er jafnframt með MBA gráðu frá IMD háskólanum í Lausanne í Sviss.

Óskar Hauksson

Fjármál og rekstur

Óskar Hauksson stýrir fjármálum og rekstri Símans sem styður við starfsemi Símans og dótturfélaga. Sviðið leggur áherslu á öfluga greiningu og miðlun upplýsinga úr rekstri samstæðunnar og fjarskiptamarkaðarins. Innan sviðsins eru einnig öryggismál samstæðunnar. Stöðugildi Fjármála og rekstrar eru 98.

Óskar hefur verð fjármálastjóri Símans frá 2011 og gegndi tímabundið stöðu forstjóra Skipta á árinu 2013. Hann hefur starfað hjá samstæðunni frá árinu 2005 og hefur viðamikla reynslu úr fjármálageiranum. Hann er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1997 og er löggiltur verðbréfamiðlari í Bandaríkjunum.


Leiðandi afl á fjarskiptamarkaði

Farsími, fastlína, internet og sjónvarp eru fjórar meginvörur Símans á smásölumarkaði. Rétt rúmur helmingur heimila er með fastlínunettengingu hjá Símanum, tæp 35% farsímanotenda eru hjá Símanum og þar af mun hærra hlutfall áskrifenda en frelsisnotenda. Þá eru sex af hverjum tíu notendum gagnvirks sjónvarps (IPTV) á Íslandi hjá Símanum. Ástæða þessarar velgengni er ekki aðeins ríflega aldargamalt samband við heimili landsins, heldur einnig sú að Síminn er leiðandi í nýjungum á markaði, býður góða þjónustu og sanngjarnt verð. Það kunna viðskiptavinir Símans að meta.

Hlutverk og gildi Símans

Stefna Símans er að vera framúrskarandi þjónustufyrirtæki í fjarskiptum, upplýsingatækni og afþreyingu á Íslandi – með viðskiptavinina í forgrunni. Gildi Símans eru skapandi, áreiðanleg og lipur.

Hlutverk okkar er að skapa viðskiptavinum okkar, einstaklingum og fyrirtækjum – fjölskyldum og samfélögum, tækifæri. Það gerum við þegar þeir nota fjarskiptakerfi Símans. Með fjarskiptum er lífið einfaldlega einfaldara og hagkvæmara. Fólk er alltaf í seilingarfjarlægð.

Síminn hefur sett sér mælanleg markmið; arðsemi í rekstri, ánægju viðskiptavina, stöðugar umbætur, stolt starfsfólk og samfélagsábyrgð.

Viðskiptalíkan Símans byggist á því að líta á alla virðiskeðjuna á einstaklingsmarkaði annars vegar og fyrirtækjamarkaði hins vegar og bjóða upp á alhliða þjónustu á sviði fjarskipta, fjölmiðla, upplýsingatækni og samskiptalausna.


Virðiskeðja Símans á einstaklingsmarkaði

Virðiskeðja Símans á fyrirtækjamarkaði


Farsíminn eins og

lykill að lífinu

Farsíminn eins og

lykill að lífinu

Birna Ósk Einarsdóttir,
framkvæmdastjóri Sölu og þjónustusviðs

„Við vildum einfalda og skýra þjónustuna svo viðskiptavinir ættu auðveldara með að sjá virðið og taka ákvörðun. Við sem stöndum í framlínu fyrirtækisins erum sannfærð um að Heimilispakkinn er viðskiptavinum afar hagstæður.“

Einfaldleikinn varð meginstef Símans á árinu 2015 segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustusviðs, og að það stafi af breyttri hegðun viðskiptavina. Fjarskiptin skipi æ stærri sess í lífi fólks. Það sæki í fjölbreyttari þjónustu og fagni því að þurfa aðeins að taka eina ákvörðun um kaup í verslunum Símans í stað margra. Heimilispakkinn sem leit dagsins ljós síðla hausts einfaldi viðskiptavinum lífið, rétt eins og samsettir pakkar fyrir farsíma, svo hvert sms, hvert símtal eða netheimsókn kalli ekki á kostnað fyrir viðskiptavini.

„Við vildum einfalda og skýra þjónustuna svo viðskiptavinir ættu auðveldara með að sjá virðið og taka ákvörðun. Við sem stöndum í framlínu fyrirtækisins erum sannfærð um að Heimilispakkinn er viðskiptavinum afar hagstæður. Viðtökurnar hafa verið frábærar og sú endurgjöf í samræmi við upplifun okkar,“ segir Birna þegar hún gerir upp árið 2015.

„Heimilispakkinn hefði áður verið samtal um margar vörur, en snýst nú um eina. Eitt verð fyrir Netið, beini, SkjáEinn hjá Símanum, Sjónvarp Símans, níu erlendar stöðvar, Endalausan heimasíma og Skjáþætti, appið að Sjónvarpi Símans og fylgir sex mánaða áskrift að Spotify Premium.“

Er aldrei snúið að selja svo margar vörur undir sama hatti?

„Það er ekkert mál þegar vörurnar eiga svona vel saman. Með Heimilispakkanum nýta viðskiptavinir möguleika nettengingarinnar til hins ýtrasta. Þeir fá allt þetta í einni ferð, einni ákvörðun, eitt verð. Það er skemmtilegt, auðveldar samskiptin og við komum með lausn fyrir heimilið í einum pakka,“ segir Birna.

„Okkur tókst með Heimilispakkanum að búa til vöru sem hentar stórum hluta viðskiptavina okkar vel og við sjáum að þeir sem kjósa Heimilispakkann eru ánægðir með þjónustuna.“
Er samkeppnin á fjarskiptamarkaði að harðna?

„Mér hefur alltaf fundist hún mjög hörð. Hún er að breytast. Samkeppnin er mikil, markaðurinn hefur breyst mikið síðustu ár. Farsíminn er orðinn eins og lyklarnir að lífinu, internetið heima orðið jafn mikilvægt og rafmagn og hiti. Þessi harða samkeppni hefur leitt til þess að félögin hafa bætt sig. Fókusinn er meiri, neytendur upplýstari um virðið og gæðin enda skiptir netið fólk meira málið en áður,“ segir hún.

„Síminn er í sterkri stöðu með öflug kerfi, bæði dreifikerfi í farsíma og interneti, frábæra virðisauka í vörunum sínum, afar öflugt framboð efnis og þjónustu á við Spotify. Þessir þættir og sænski tónlistarstreymisrisinn gefa okkur hjá Símanum mjög gott tækifæri til aðgreiningar. Stoltust erum við þó að baklandinu sem viðskiptavinir hafa í starfsfólki okkar, fólki sem leggur nótt við dag við að þjónusta viðskiptavini. Þjónusta er aðalsmerki Símans og við erum meðvituð um að hún er sú sem drífur söluna. Það vita ekki aðeins 220 starfsmenn sölu- og þjónustusviðsins heldur allt fyrirtækið. Saman stefnum við alltaf að því að hún sé framúrskarandi.“

Hvað stendur upp úr á árinu?

„Samhenta átak okkar starfsmanna sem er að sinna viðskiptavinum okkar alltaf betur og betur. Það gekk mjög vel. Í samskiptum við viðskiptavini okkar reynum við að sýna þeim hversu miklu máli þeir skipta okkur. Við leggjum okkur fram um að leysa mál þeirra hratt og örugglega. Þeir eru ekki hér fyrir okkur, við vinnum fyrir þá,“ segir Birna.

„Þessi fókus hefur skilað okkur fleiri viðskiptavinum í áskrift mörgum þjónustuþáttum, eins og til dæmis í farsíma og sjónvarpi en einnig dregið úr brottfalli á öðrum þáttum.“

Hvernig verður 2016?

„Árið 2016 verður mjög fjörugt. Eins og viðskiptavinirnir vilja alltaf fá meira og meira frá okkur viljum við að þeir eigi auðveldara með að fylgjast með reikningum sínum. Við óttumst ekki þann samanburð. Krafan um gæðaþjónustu og betra verð drífur okkur áfram á árinu,“ segir Birna.

„Ótrúlegt að sjá hvernig notkunin á netinu vex og vex, hvort sem er á fastanetinu eða farsímanetinu. Nærri 75% vöxtur þar milli ára staðfestir að farsíminn er orðinn hluti af einstaklingum. Dreifikerfi, geta þeirra og þéttni um allt land, verður meira og meira mál. Þar höfum við háleit markmið og massífa áætlun sem gerir okkur enn betur kleift að standa undir væntingum viðskiptavina.“


Öryggi gagna er grundvallaratriði

Síminn starfrækir stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis samkvæmt aðferðafræði ISO 27001 til að styðja við stefnu og gildi Símans um áreiðanleika. Öryggisráð félagsins rýnir áætlanir um eftirlit eins og áhættumat og innri úttektir ásamt niðurstöðum að lágmarki einu sinni á ári. Á vormánuðum 2014 tilkynnti forstjóri Símans að fyrirliggjandi ISO vottun yrði útvíkkuð til að ná yfir fleiri þætti starfseminnar og er stefnt að staðfestingu vottunar í apríl.

Árásum á netkerfi fjölgar stöðugt og þarf sífellt að vinna að umbótum og bæta varnir. Öflugt og vottað skipulag öryggismála er mikilvægur liður í því að ráðstafanir séu virkar og umbætur í farvegi. Öryggi er forgangsmál hjá Símanum og ber framkvæmdastjórn ábyrgð á því að gripið sé til viðeigandi ráðstafana.

Nánar


Jákvæð upplifun

með auknum afköstum

Jákvæð upplifun með

auknum afköstum

Eric Figueras,
framkvæmdastjóri Tæknisviðs Símans

„Með því að horfa gagnrýnum augum á notagildi fyrirtækisins náðist mikil hagræðing. Við náðum hentugri samningum og treystum samband okkar enda er lykillinn að góðu viðskiptasambandi að ávinningur náist fyrir viðskiptavini, birgjana sjálfa og Símann.“

„Hlutverk Tæknisviðs er að reka og þróa fjarskiptainnviði Símans ásamt því að vera öflugur samstarfsaðili í viðskiptaþróun og nýsköpun. Það er Tæknisviðs að stuðla að jákvæðri upplifun viðskiptavina af þjónustunni svo vernda megi samkeppnishæfni Símans,“ segir Eric Figueras, framkvæmdastjóri Tæknisviðs Símans.

Tímamótasamningur var til að mynda gerður við Ericsson á árinu 2015, sem skapar landsmönnum tækifæri til að tengjast hágæða farsímakerfi á heimsmælikvarða. „Við höfum sett upp fjölda nýrra senda á árinu. 4G kerfi Símans náði þar með til 89% landsmanna undir lok árs 2015. Gagnanotkun viðskiptavina nær tvöfaldaðist og reiknum við með að sú þróun haldi áfram næstu árin. Með nýjum samningi við Ericsson aukum við afköst og gæði kerfisins með auðveldari hætti en áður.“

Hver er megináherslan í samningagerð við birgja?

„Samvinna,“ segir Eric og bendir til að mynda á samninginn um þjónustukerfið Salesforce sem var endurnýjaður í byrjun síðasta árs. „Með því að horfa gagnrýnum augum á notagildi fyrirtækisins náðist mikil hagræðing. Við náðum hentugri samningum og treystum samband okkar enda er lykillinn að góðu viðskiptasambandi að ávinningur náist fyrir viðskiptavini, birgjana sjálfa og Símann.“

Samningurinn um Farice-sæstrenginn var endurnýjaður á síðasta ári. „Nýi samningurinn við Farice, sem tók gildi á þriðja ársfjórðungi 2015, tryggir meiri ávinning fyrir viðskiptavini Símans, bæði á heildsölustigi og smásölumarkaði, um leið og hann treystir samvinnu okkar. Við munum njóta þess að bandvíddin stækkar ár frá ári til loka áratugarins og getum því mætt síaukinni þörf fyrir gagnamagn.“

Hverjar voru meginbreytingar og verkefni innan sviðsins?

„Nýtt reikningagerðarkerfi var tekið í notkun á árinu,“ segir Eric. „Síminn hefur undanfarin ár skipt út þeim grunnkerfum sem starfsemi Símans byggir á og reikningagerðarkerfið er eitt þeirra. Með því að byggja á nýjustu hugbúnaðarlausnum, sem styðja við lykil þjónustuferla fjarskiptafyrirtækja, á Síminn auðveldara með að fylgja eftir þeirri öru þróun sem á sér stað í fjarskiptaheiminum og leiða þegar við á,“ segir Eric.

Árið 2015 var það fyrsta án upplýsingatæknisviðsins innan Tæknisviðs Símans, en Sensa tók við sviðinu í upphafi árs. „Við færðum rekstur tölvukerfa til Sensa um áramótin 2014-2015. Með þessum breytingum höfum við séð hvernig kostnaðurinn við ákveðin verkefni sviðsins hefur lækkað með auknu gagnsæi. Mun auðveldara er en áður að kostnaðargreina og sjá hvar handtökin nýtast þegar við nýtum þjónustu Sensa.“ Samstæðan njóti stærðarhagkvæmninnar um leið og auðveldara sé að áætla tíma og krafta í hvert verkefni innan sviðsins.

„Klæðskerasniðinn rekstur,“ svarar Eric spurður um áherslurnar á árinu 2016. „Við ætlum áfram að vinna að því að finna réttu niðurstöðuna í samvinnu við birgjana okkar. Við höldum áfram að stækka og endurnýja kerfin og gera það af fyrirhyggju og nákvæmni til að ná markmiðum okkar á Tæknisviði.“Heildsalan mikilvæg

í rekstri
Símans

Heildsalan mikilvæg í

rekstri Símans

Jóhanna Guðmundsdóttir,
forstöðumaður Heildsölu Símans

„Upplifun viðskiptavina drífur okkur áfram. Við endurskoðum verðlagningu miðað við forsendur hvers tíma og markmiðið er að veita góða þjónustu á hagstæðum kjörum svo gagnist Símanum, viðskiptavinum og þar með hluthöfum Símans.“

„Heildsalan leggur sig fram um að sem flestir landsmenn geti nýtt sér þá miklu fjarskiptainnviði sem Síminn á,“ segir Jóhanna Guðmundsdóttir, forstöðumaður Heildsölu Símans sem rekin er sem óháð eining innan Tæknisviðs Símans. Netþjónusta, sjónvarpsþjónusta, talsími og farsími eru helstu vörur Heildsölu Símans. „Við þjónustum fjarskiptafyrirtæki með þessar fjórar lykilstoðir innviða. Fjárfestingar Símans eru verulegar á hverjum tíma og mikilvægt að hámarka nýtingu þeirra eins og kostur er. Síminn lítur því á Heildsöluna sem mikilvæga stoð í afkomu félagsins.“

Viðskiptavinir Símans í heildsölu eru meðal helstu keppinautar hans á smásölumarkaði. Einnig er fjöldi erlendra fjarskiptafyrirtækja í viðskiptum við heildsölu Símans.

„Sýn okkar er sú að samstarf við önnur fjarskiptafyrirtæki leiði til betri nýtingar á fjarskiptanetum Símans. Það gefur öðrum fjarskiptafélögum tækifæri til að nýta sér stærðarhagkvæmi Símans og þjónustuframboð þess.“

Eru allar vörur Símans einnig á heildsölumarkaði?

„Það er að sjálfsögðu ekki svo að allar smásöluvörur Símans séu í heildsölu, en allar þær helstu. Heildsalan starfar bæði samkvæmt leikreglum eftirlitsaðila og einnig í vaxandi mæli á viðskiptalegum forsendum,“ segir Jóhanna. „Þar má nefna farsímaþjónustu Símans en almenn farsímaþjónusta er dæmi um vöru sem lýtur ekki kvöðum yfirvalda lengur.“

Jóhanna segir jafnræði grundvöll þess að heildsala dafni innan fyrirtækisins. „Hér innan Heildsölunnar fá allir sama þjónustustig, hvort sem þar eru á ferð smásala Símans eða keppinautar. Við leggjum mikla áherslu á að viðhalda múrum á milli heildsölu og smásölu. Fagleg vinnubrögð og heilindi í störfum okkar eru lykilatriði svo heildsalan blómstri. Traust verður að ríkja í samskiptunum.“

Hvar lágu áherslurnar á árinu 2015?

„Heildsalan skiptist í þrjár einingar, sölu- og vörustýringu, erlend viðskipti og Tækniþjónustuna. Einingin tvöfaldaðist á árinu þegar sú síðastnefnda var efld sem skilaði bættri þjónustu til viðskiptavina. Meiri samfella varð í þjónustunni,“ segir Jóhanna. „Þá hafði reglugerð Evrópusambandsins áhrif til kostnaðar- og tekjulækkunar í reiki. Við náðum einnig góðum samningum við erlend fjarskiptafélög. Þetta hefur haft jákvæð áhrif fyrir neytendur og viðskiptavini Símans.“

Jóhanna segir að mikill fókus verði áfram á Tækniþjónustuna nú á nýju ári og gæði þjónustunnar. „Upplifun viðskiptavina drífur okkur áfram. Við endurskoðum verðlagningu miðað við forsendur hvers tíma en markmiðið er að veita góða þjónustu á hagstæðum kjörum svo gagnist Símanum, viðskiptavinum og þar með hluthöfum Símans.“Síminn og Spotify endurnýjuðu heitin

Síminn og Spotify endurnýjuðu heitin til tveggja ára á árinu 2015 en þá voru farsæl tvö ár að baki. Vöxtur Spotify á Íslandi hefur verið ævintýralegur. Viðskiptavinir nutu þess að vera með Premium aðganginn sinn hjá Símanum á liðnu ári, því Síminn tryggði viðskiptavinum sínum tækifæri til að streyma Spotify Premium-tónlistinni um snjalltækin án þess að hún taki af gagnamagninu á farsímaneti Símans. Þá gátu viðskiptavinir ekki aðeins fengið sex mánaða aðgang að Premium þjónustunni, án endurgjalds fyrir hálfs árs viðskiptasamband í farsíma, heldur einnig við kaup á Heimilispakkanum.


Framúrskarandi

fyrirtækjaþjónusta

Framúrskarandi

fyrirtækjaþjónusta

Þórður Guðjónsson,
forstöðumaður Viðskiptastýringar og sölu

„Við tókum með markvissum hætti á tímasóun í ferlum sem varð að tíma sem nýtist nú til hins betra fyrir viðskiptavini Símans. Þjónusta Símans á fyrirtækjamarkaði er því eins og við viljum hafa hana; framúrskarandi.“

Fyrirtækjaþjónustu Símans var umbylt á árinu 2015. Fimmtán hundruð fyrirtæki eru nú í stýringu hjá Símanum í stað ellefu hundruð áður. Stefnt er að því að þau verði 1.600 með breyttu vinnulagi. Við gagngera endurskoðun á starfsháttum hefur sölutækifærum fjölgað um 25% umfram áætlun – sem þó var aukin um 10% frá því í fyrra.

„Við tókum með markvissum hætti á tímasóun í ferlum sem varð að tíma sem nýtist nú til hins betra fyrir viðskiptavini Símans. Þjónusta Símans á fyrirtækjamarkaði er því eins og við viljum hafa hana; framúrskarandi,“ segir Þórður Guðjónsson, forstöðumaður Viðskiptastýringar og sölu.

Hvernig leggjast breytingarnar í viðskiptavini?

Þórður segir mikla ánægju, sérstaklega meðal forsvarsmanna miðlungsstórra fyrirtækja sem fengu í fyrsta skipti sinn eigin þjónustufulltrúa. „Það sparar þeim tíma að geta gengið að þekkingunni um fyrirtækið sitt vísri hjá þjónustufulltrúa sínum,“ segir Þórður. „Það er sérgrein Símans að bjóða góða þjónustu. Þjónusta getur ráðið úrslitum þegar kemur að því að velja við hverja er skipt. Við bjóðum fyrirtækjum í viðskiptum við Símann að lágmarki eina yfirferð á kjörum og áskriftum á ári. Þau eru því á bestu kjörum sem við bjóðum á hverjum tíma.“

Þórður segir stemninguna innan fyrirtækjaþjónustunnar mjög góða. „Við erum meðvituð um samkeppnina úti. Við erum keppnisfólk og til í slaginn. Breytt fyrirkomulag hefur skapað meiri yfirsýn. Við sem hér vinnum eigum auðveldara með að vinna vinnuna okkar eftir að ferlarnir voru endurskoðaðir. Nú nálgumst við viðskiptavinina ekki síður en þeir okkur. Það er dýrmætt að geta boðið góða þjónustu.“Sjónvarp Símans efldist á tíu ára afmælinu

Ekki aðeins gátu viðskiptavinir í fyrsta sinn keypt staka knattspyrnuleiki í Sjónvarpi Símans á árinu 2015, heldur kynnti Síminn einnig foreldrastýringu til leiks, app að þjónustunni fyrir fartölvur, samning við Sinfóníuhljómsveit Íslands svo aðdáendur geti notið tónlistarinnar hvar og hvenær sem er. Sjónvarp Símans hélt upp á tíu ára afmælið í upphafi árs.

Sjónvarp Símans hefur í þennan áratug verið brautryðjandi í sjónvarpsþjónustu á Íslandi og því fylgt VoD-þjónusta, Tímaflakk og háskerpa.

Sjónvarp Símans byggist á öflugu kerfi og er þróað hjá Símanum sem gerir fyrirtækinu mögulegt að vera sveigjanlegt og lágmarkar tíma við þróun og innleiðingu á nýjungum. Og þær verða margar á árinu 2016, til að mynda eru hafnar prófanir á 4K, ultra háskerpu.

Síminn þekkir það frá fornu fari að vera fyrstur með nýjar vörur á markað. Þetta á að sjálfsögðu við um talsíma, fastlínu, farsíma og sjónvarp. Að öllu gamni slepptu má nefna Frelsi, ADSL og VDSL, IPTV, Tímaflakk, Snjallsjónvarp (app) og auðkenningu í farsíma.


Breyttur SkjárEinn

mætir erlendri samkeppni betur

Breyttur SkjárEinn

mætir erlendri samkeppni betur

Magnús Ragnarsson,
framkvæmdastjóri Miðla og markaða

„Þegar kemur að áskriftum heimila að efni nær samkeppnismarkaðurinn langt út fyrir landsteinana. Breyttur SkjárEinn var því forsenda þess að hann lifði þar sem við höfum litla trú á framhaldslíf hefðbundins áskriftarsjónvarps.“

Síminn hóf á árinu að herja með taktföstum hætti á nútímasjónvarpsmarkað. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla og markaðar, leiddi breytingarnar innan Símans, sem eru byltingarkenndar.

Magnús, sem hefur mikla reynslu af sjónvarpsrekstri, tók með fólki sínu skref sem hefur ekki áður verið stigið. Sérfræðingar Símans í vöruþróun litu meðal annars til viðskiptamódels einnar stærstu tónlistarstreymisveitu heims, Spotify, við breytingarnar. SkjárEinn, sem hefur verið hefðbundin línuleg áskriftarstöð á um fimmtán þúsund heimilum, varð í október aftur frístöð. Hún er nú inni á 120 þúsund heimilum. Félagið opnaði einnig SkjáEinn hjá Símanum sem þá varð að gagnvirkri innlendri efnisveitu, þar sem viðskiptavinir geta sótt sér þúsundir klukkustunda af textuðu efni. Efnisframboðið hjá Símanum varð þá rétt eins og hjá hinum sænska tónlistarrisa, annarsvegar frí útgáfa og hinsvegar í áskrift með fleiri eiginleikum.

Hvert var markmiðið?

„Þær breytingar sem við gerðum voru drifnar af gerbreyttri hegðun notenda þar sem áskriftir að gamaldags áskriftarstöðvum eiga verulega undir högg að sækja alls staðar í heiminum. Samkeppnisumhverfið er líka gerbreytt og keppinautarnir eru ekki lengur innlendir heldur erum við að glíma við alþjóðlega risa á borð við Netflix. Við ákváðum því að halda áfram að leiða innlendan sjónvarpmarkað með afar öflugri innlendri efnisveitu,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla og markaða hjá Símanum. Fleiri áskrifendur eru nú að efnisveitunni en voru að SkjáEinum í áskrift. „Við erum afar ánægð með að ákvörðunin mælist svo vel fyrir meðal viðskiptavina,“ segir Magnús.

„Enda tókum skrefið í trú á þessu nýja viðskiptamódeli. Við sáum að forsenda þess að SkjárEinn lifði væru dramatískar breytingar á þjónustunni. SkjárEinn hjá Símnaum var skref til að tryggja framhaldslíf þjónustunnar á tímum þar sem hefðbundið áskriftarsjónvarp á undir högg að sækja,“ leggur hann áherslu á.

„Við sjáum að fólk sækir í myndefni eftir pöntun. Netflix er nú á þriðja hverju heimili. Fólk kýs að nálgast sjónvarpsefni á netinu. Þetta er þróun sem er í sókn og þessari eftirspurn vildum við aðlaga okkur að og mæta,“ segir Magnús.

„Um leið og við bjóðum viðskiptavinum á hverju kvöldi að nálgast forsýningar og heilu þáttaraðirnar, sem enn hafa ekki verið teknar til sýninga á sjónvarpsstöðinni, geta sjónvarpsáhorfendur sem þess óska notið þess að horfa á gamla, góða SkjáEinn sem stendur undir sér með aðstoð auglýsenda. SkjárEinn í opinni dagskrá og SkjárEinn hjá Símanum er ólík þjónusta, hentar ólíku fólki en mætir þörfum fleiri. Það er ljóst.“

Magnús er ánægður með að sjá hve fljótir notendur voru að uppgötva forsýningar þátta í SkjáEinum hjá Símanum. „Þar höfum við séð gríðarmikinn vöxt, langt umfram væntingar,“ segir hann. „Ólínulegt sjónvarp er framtíðin enda þverrandi þolinmæði fyrir vikulegri birtingu sjónvarpsefnis.“

Hver er framtíð þjónustunnar?

„Í framtíðinni höldum við áfram að bæta við efni. Við viljum að Sjónvarp Símans verði vettvangur alls þess efnis sem áhorfendur vilja nálgast. Við stefnum á að einfalda lífið fyrir viðskiptavini Símans. Þeir geti gengið að efni vísu hjá Símanum,“ segir Magnús.

„Árið 2015 var flottur upptaktur að þeirri stefnu. Við sömdum við Twentieth Century FOX, síðan framleiddum við The Voice Ísland og sýndum á SkjáEinum í opinni dagskrá. Við erum virkilega stolt af honum. Viðtökurnar voru framúrskarandi. Aldrei hefur sjónvarpsframboð stöðvarinnar verið eins sterkt eða Síminn boðið eins öfluga efnisveitu. Þessi þjónusta á enn eftir að vaxa, eins og framboð Símans þegar kemur að sjónvarpi og fjarskiptalausnum.“


Stærsta árið í sögu SkjásEins

Miklar breytingar áttu sér stað í október þegar SkjárEinn breyttist í gagnvirka efnisveitu í áskrift hjá Símanum. Á sama tíma var bein línuleg dagskrá SkjásEins opnuð í háskerpu á öllum sjónvarpskerfum landsins, án endurgjalds.

Með breytingunum er neytendum boðið að stjórna því hvernig og hvenær þeir horfa á sjónvarpsefni. Fyrirkomulagið að uppskiptingunni er byggt á íslensku hugviti og er þróað hjá Símanum. Fyrirmyndin er fengin úr tónlistar- og leikjaheiminum á netinu, þar sem notendur fá ókeypis aðgang að takmörkuðum hluta þjónustunnar með möguleika á að greiða fyrir úrvalsþjónustu.

„Þessi breyting á SkjáEinum undirstrikar einfaldlega þá staðreynd að gagnvirkar efnisveitur eru áskriftarsjónvarpsstöðvar nútímans," sagði Orri Hauksson, forstjóri Símans, þegar breytingin var kynnt.

Innlend dagskrárgerð sterk

Innlend dagskrá hefur sjaldan verið umfangsmeiri á SkjáEinum en tveir stórir þættir af erlendri fyrirmynd voru sýndir á árinu. Stærsti nýi þáttur ársins var íslenska útgáfan af The Voice sem frumsýndur var að hausti í opinni dagskrá. Þetta er glæsilegasta og og stærsta þáttaröðin sem SkjárEinn hefur framleitt. Samkvæmt áhorfsmælingum Capacent horfðu alls um 31% tólf ára og eldri á fyrsta þáttinn og þegar beinu útsendingarnar hófust í þáttaröðinni, sló áhorfið öll met þegar 61% sjónvarpsáhorfenda undir fimmtugu valdi þáttinn umfram annað efni í sjónvarpi. Samkvæmt leyfisstjóra sýningarréttarins að þættinum á heimsvísu hefur markaðshlutdeild þáttarins aldrei verið meiri í sjónvarpi. Helgi Björns, Svala Björgvins og Unnsteinn Manúel snúa stólunum á nýjan leik með haustinu 2016.

Stærsti samningur SkjásEins frá upphafi

SkjárEinn tryggði sér verðmætan samning við eitt stærsta kvikmyndaver í heimi, 20th Century FOX og við tók umbylting á efnisframboði frá því sem áður var. Samningurinn er sá mikilvægasti sem SkjárEinn hefur skrifað undir í áraraðir og tryggir enn meira framboð af nýjum og eftirsóknarverðum þáttaröðum sem sýndir verða í línulegri dagskrá sem og í efnisveitunni fyrir áskrifendur. Þeirra á meðal eru Minority Report, Scream Queens, The Bastard Executioner og American Crime Story. Auk þess má nefna gamanþættina The Grinder með Rob Lowe, Life in Pieces með Colin Hanks og Baskets með grínistanum Zach Galifianakis úr Hangovermyndunum. Allir nýir þættir sem FOX framleiðir verða sýndir á SkjáEinum á samningstímanum.

Einnig var gerður samningur við CBS Televison sem er elsti og tryggasti efnisbirgi SkjásEins frá stofnun. Fyrir var samningur við Disney en þessir þrír lykilbirgjar SkjásEins hafa átt ein sín bestu ár í áratug eða svo og hefur stöðin sjálfkrafa notið góðs af því


Netið breytir

áfram öllum heiminum

Netið breytir

áfram öllum heiminum

Sigurveig Hallsdóttir,
vörustjóri M2M og IoT hjá Símanum

„Fólk sjúkdómsgreinir sig í gegnum netið og stundar félagslíf, grunnskólafélagarnir eru til að mynda í seilingarfjarlægð út lífið. Netið hefur á stuttum tíma kollvarpað lífi fólks.“

„Netið hefur breytt heiminum. Tæknin er á fleygiferð. Nettengdir bílar, jafnvel sjálfkeyrandi. Hver á að skutla börnunum getur auðveldlega orðið vandamál fortíðarinnar,“ segir Sigurveig Hallsdóttir, vörustjóri M2M og IoT – eða öllu heldur, vörustjóri framtíðarinnar hjá Símanum. „Daglegt líf fólks mun halda áfram að breytast og það gera viðskiptamódel fyrirtækjanna einnig. Við sjáum ógrynni tækifæra sem við hjá Símanum ætlum að grípa.“ Hvaða? „Hernaðarleyndarmál,“ svarar hún sposk.

Sigurveig nefnir hvernig tölvan er bækistöð verslunar okkar, hvort sem við lítum til fatakaupa, bókum ferð í draumafríið, pöntum flugfar eða eigum bankaviðskipti. Myndbandaleigur heyri sögunni til og sjónvarpstæki séu ekki lengur nauðsynleg til að horfa á á uppáhalds efnið. Fjarheilbrigðisþjónusta sé þegar orðin að veruleika og eigi eftir að þróast.

„Fólk sjúkdómsgreinir sig í gegnum netið og stundar félagslíf, grunnskólafélagarnir eru til að mynda í seilingarfjarlægð út lífið.“ Hegðun fólks á netinu sé jafnvel orðin að vöru. „Netið hefur á stuttum tíma kollvarpað lífi fólks,“ segir hún.

Megum við eiga von á enn meiri breytingum?

„Spár gera ráð fyrir að fjöldi tengdra tækja margfaldist á næstu árum. 99% af heiminum er enn ótengdur, segja sérfræðingar þegar þeir reyna að lýsa því hversu mikil þróunin verður. Netnotkun í farsíma hefur breytt lífsmynstri fólks á örfáum árum, en það er innan við áratugur síðan Síminn setti 3G á markað. Farsímanetið er ein af þeim meginbreytingunum sem viðskiptavinir Símans hafa fundið fyrir. Hvorki Síminn né viðskiptavinir hans gætu hugsað sér að fara til baka. Við hugsum fram á veginn.“

Hún bendir á að mörg fyrirtæki sjái ekki fyrir öll þau tækifæri sem þau geta nýtt sér í gegnum netið: „Öryggi gagna og aðgangur að framúrskarandi neti er lykilatriði í þjónustu fjarskiptafyrirtækja um leið og þau eru vel í stakk búin til að þróa með fyrirtækjum réttu lausnirnar til framtíðar.“

Er erfitt að sjá framtíðina fyrir?

Sagan segir okkur að margt sem virðist fjarstæðukennt í dag, getur verið aðal málið á morgun. Þá getur verið snúið að meta hvað verður að viðskiptatækifæri og hvað ekki. Við skoðum því hinar ýmsu hugmyndir. Hver þeirra verður ofan á og hvenær er ekki alltaf ljóst. En við vinnum með orð tileinkuð Henry Ford. Hefði fólk verið spurt hver draumur þess væri í farþegaflutningum fyrir tíma bílsins hefði það viljað fljótari hesta. Ford fór fram úr væntingunum þegar hann fjöldaframleiddi bíla. Við hjá Símanum stefnum einnig á að uppfylla þarfir fólks sem það sér ekki fyrir í dag, en verða nauðsynlegar á morgun.“


Efnisveitan aldrei vinsælli

Ógrynni af sjónvarpsefni er aðgengilegt með áskrift að efnisveitu SkjásEins hjá Símanum. Þar er að finna þætti sem eru á dagskrá SkjásEins en einnig fjöldan allan af viðbótarsjónvarpefni sem eingöngu er í boði í efnisveitunni. Með áskrift geta viðskiptavinir pantað sjónvarpsefni þegar hentar og nýtt sér þann sveigjanleika og framboð efnis sem þar er í boði. Þá bættist við ný þjónusta, Forsýningar, þar sem allir þættir SkjásEins eru aðgengilegir að morgni eftir frumsýningu í Bandaríkjunum.Það er allt

í símanum

Það er allt

í símanum

Guðjón Leifsson,
forstöðumaður Vöru og viðskiptaþróunar

„Útsjónarsemi fjarskiptafélaga er afar mikilvæg. Fjarskiptafyrirtæki þurfa áfram að keppa að því að aðgreina sig með meira virði fyrir viðskiptavini. Við hjá Símanum höfum gert það til að mynda í gegnum Gomobile.“

Lífsstíll viðskiptavina Símans er einn helsti drifkraftur Guðjóns Leifssonar í starfi. Guðjón er forstöðumaður Vöru og viðskiptaþróunar. Átta vörustjórar starfa undir stjórn hans og horfa og til breyttrar notkunar og tækja þegar þeir hanna þjónustu og vöru sem hentar viðskiptavinum.

„Framtíðarsýnin sem við höfðum árið 2014 er orðin að veruleika. Það er allt í símanum,“ segir Guðjón sem kynnti Endalaust, snjallsímaleiðir með ótakmörkuðu tali og SMS-um, til leiks á fyrri hluta árs 2014, eftir margra mánaða undirbúning. Um helmingur viðskiptavina hefur fært sig yfir í hentugar snjalláskriftaleiðir hjá Símanum og notar netið jöfnum höndum heima og að heiman í gegnum snjallsímann.

„Flæðið á milli farsíma- og fastaneta er orðið fumlaust. Eini munurinn er að neytendur eru meira hugsi út í kostnaðinn á farsímanetum. Wi-Fi er frítt í huga margra sem gerir það að verkum að þeir hugsa heldur um það hvort netið þeir nota. En auðvitað er það aldrei frítt frekar er annað í þessum heimi. Það greiðir alltaf einhver fyrir, sem er einmitt áskorun okkar vörustjórana – Hver er tilbúinn að greiða hvað og hvenær.“

Hvað drífur söluna hjá Símanum?

„Eitt af því sem við höfum gert er að færa Símann meira yfir í afþreyingu. Á komandi tímum kemur æ stærri hluti tekna frá afþreyingarhlutanum,“ segir Guðjón. „Við sjáum viðskiptavinum því ekki aðeins fyrir flutningsleiðunum um netið heldur einnig efninu sem þeir vilja njóta. Með Heimilispakkanum höfum við náð að mæta þessari eftirspurn. Hann uppfyllir þarfir og kröfur heimila til fjarskipta og afþreyingar. Innan hans fá viðskiptavinir þúsundir klukkustunda af sjónvarpsþáttum sem hægt er að horfa á þegar hentar. Pakkinn er sniðinn að því að henta langstærstum hluta heimila fyrir fast verð á mánuði,“ útskýrir Guðjón.

„Helsti kostur Heimilispakkans er þó að hann auðveldar kaupákvörðun viðskiptavina. Hann skapar líka ákveðið hagræði í því sem við gerum innan Símans. Í stað þess að fara yfir á annan tug þjónustuleiða fyrir farsíma, heimasíma og internet ræðir fulltrúi Símans við viðskiptavininn um einn Heimilispakka og farsíma. Þetta einfaldar og styttir tíma í afgreiðslu, sem skilar sér í þessu sanngjarna verði til neytenda.“
En á Síminn eftir að auka enn á vöruframboðið í framtíðinni?

„„Já, við gerum ráð fyrir að verða með fleiri tekjustrauma í framtíðinni og jafnvel smærri. Við stefnum á að auka samstarf Símans við aðila sem bjóða lausnir um netið,“ segir Guðjón. „Útsjónarsemi fjarskiptafélaga er afar mikilvæg. Fjarskiptafyrirtæki þurfa áfram að keppa að því að aðgreina sig með meira virði fyrir viðskiptavini. Við hjá Símanum höfum gert það til að mynda í gegnum Gomobile, sem gerir viðskiptavinum kleift að nota daglega neyslu sína til að greiða fyrir fjarskipti og afþreyingu. Við höfum einnig átt í mjög heillaríku samstarfi við Spotify sem er ein stærsta tónlistarstreymisveita heims og gert samning um áframhaldandi samstarf. Samvinna sem þessi er okkur mikið kappsmál.“

Hvernig sérðu fyrir þér árið 2016?

„Tekjustraumar í farsíma hafa breyst mikið. Það verður áfram áskorun. Viðskiptavinir koma til með að halda áfram að færa sig í áskriftarleiðir sem eru betur sniðnar að netnotkun í farsíma. Það eru spennandi tímar fram undan í farsíma og við höfum stöðugt þörf fyrir enn meira gagnamagn og mikilvægt að verðlagning og notkun fari vel saman,“ segir Guðjón.

„Áfram verður gríðarlega hörð samkeppni á öllum mörkuðum fjarskipta. Við komum til með að þróa áfram lausnir eða þjónustu fyrir heimili og fyrirtæki í landinu sem skapa aukið virði og koma til með að leysa þarfir þeirra á nýjum sviðum og mæta útspilum samkeppninnar. Eitt af því sem við munum einblína á á árinu eru ferlar þjónustunnar og gæði hennar svo upplifun viðskiptavina hjá Símanum verði framúrskarandi.“Barna og fjölskyldumyndir vinsælastar í SkjáBíói

Um leið og kvikmyndir hafa verið sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum eru þær í boði í stærstu kvikmyndaleigu Íslands; SkjáBíó. Þar er að finna yfir 6.000 titla af nýjum og sígildum myndum. Sífellt er verið að bæta þjónustuna með auknu efnisframboði og einfalda efnisleit og flokkun mynda. Vinsælustu myndir ársins 2015 voru barna- og fjölskyldumyndir. Ljóst er að SkjárBíó er vinsæll valkostur fyrir fjölskyldufólk enda mikil þægindi fólgin í að hafa ógrynni af vönduðu afþreyingarefni rétt innan seilingar. Rúmlega 630.000 greiddar leigur á árinu 2015.

Topp 10

Vinsælustu myndir ársins 2015 í SkjáBíói

 • Svampur Sveinsson: Á þurru landi

  Nyjasta myndin um Svamp sló í gegn og var vinsælust allra

 • Dumb and Dumber To
 • Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum
 • Hrútar
 • Paddington – ísl. tal.
 • Gone Girl
 • Skósveinarnir
 • The Captive
 • Inside Out – ísl. tal.
 • Alexander and the Terrible, Horrible, No Good, Very Bad Day

Met slegið

í þjónustu

Met slegið

í þjónustu

Sonja Björk Frehsmann,
gæðastjóri þjónustu

„Við, starfsmenn Símans, þurfum að sjá þarfir þeirra fyrir og stöðugt að skoða hvernig við getum gert betur, stöðva brottfall og fá þá til að kjósa okkur. Við þurfum alltaf að vera á tánum.“

Met var slegið í viðhorfi viðskiptavina til þjónustu Símans á árinu 2015. Sonja Björk Frehsmann, gæðastjóri þjónustu hjá Símanum, segir að einbeitt hugarfar og markviss vinna hafi leitt til þessa góða árangurs. „Síminn er til fyrir viðskiptavininn. Við, starfsmenn Símans, þurfum að sjá þarfir þeirra fyrir og stöðugt að skoða hvernig við getum gert betur, stöðva brottfall og fá þá til að kjósa okkur. Við þurfum alltaf að vera á tánum.“

Hvernig veistu að árangurinn náðist?

„Við setjum okkur markmið og fylgjumst með frávikum. Við hlustum vel á viðskiptavininn gagngert til að leysa málin í fyrstu snertingu og fara fram úr væntingum hans. Við þjónustum þá þar sem þeir kjósa – í gegnum þjónustuvefinn siminn.is, símappið, samfélagsmiðla, síma, verslanir og öfluga endursöluaðila,“ segir Sonja. Þjónustan er mæld mánaðarlega sem veitir starfsmönnum aðhald og hvetur þá til að gera betur. Gallup hefur í fimm ár mælt þjónustuvísitölu Símans.

„Þjónustuvísitöluna höfum við mælt frá árinu 2010. Við mælum sex undirþætti sem fræðin segja að séu lykilþættir í að mæla áhrif á ánægju viðskiptavina. Allar einingarnar hafa statt og stöðugt hækkað frá upphafi mælinga. Árið 2015 slógum við met og hækkuðum umtalsvert frá árinu á undan. Ég vil tileinka það því að við hlustum á viðskiptavini og vinnum markvisst að því að hækka þjónustuvísitöluna. Endurgjöfin frá bæði viðskiptavinum og starfsmönnum var nýtt til að gera betur.“

Hvernig stöndum við okkur á árinu 2016?

„Margt spennandi er í pípunum sem veitir tækifæri til þess að þjónusta betur og bæta enn upplifun viðskiptavina. Ég er því sannfærð um að viðskiptavinir munu finna mun og upplifa framúrskarandi þjónustu.“