Í stuttu máli

500

Reikisamningar On-Waves fyrir GSM um heimsins höf eru fimm hundruð talsins.

7

Þjónusta On-Waves er í boði í öllum 7 heimsálfum, Afríku, N-Ameríku, S-Ameríku, Ástralíu, Suðurheimskauti, Asíu og Evrópu.

400

Áætlaður fjöldi skipa með GSM þjónustu On-Waves í lok árs 2016.

On-Waves býður upp á farsímaþjónustu, bæði GSM og CDMA, um borð í millilandaferjum, skemmtiferðaskipum og sérhæfðum iðnaðar- og fraktskipum. On-Waves þjónustar skip í öllum heimsálfum. Auk þess er félagið með símaþjónustu í gegnum CDMA á nokkrum eyjum í Karíbahafinu.

Síminn stofnaði félagið árið 2007 með það að markmiði að auka umsvif sín á fjarskiptamarkaði fyrir skip á alþjóðahafssvæðum en Síminn hafði verið með starfsemi á þeim markaði frá árinu 2003. Síminn og On-Waves eiga í nánu samstarfi. On-Waves nýtir meðal annars reikisamninga Símans við erlend fjarskiptafyrirtæki fyrir þjónustu sína. On-Waves starfar alfarið á mörkuðum utan Íslands og eru tekjur félagsins í bandarískum dollurum og evrum.

Síminn fer með 90% hlut í félaginu. Fastir starfsmenn On-Waves skipa níu stöðugildi en að auki starfa verktakar við fyrirtækið í öðrum löndum Evrópu, Norður-Ameríku og í Asíu.

Framkvæmdastjóri On-Waves er Kristinn Ingi Lárusson.


On-Waves búnaður er í öllum gerðum skipa

On-Waves access unit

Rekstrarárið 2015 einkenndist af áframhaldandi sókn á markaði og frekara samstarfi við alþjóðleg fyrirtæki á sviði fjarskipta til sjós. On-Waves kynnti á árinu 2013 búnað sinn, On-Waves Access Unit, sem gerir því kleift að bjóða þjónustu sína á skipum af öllum stærðum, hvort sem um er að ræða stór farþegaskip, fraktskip, iðnaðarskip, fiskiskip eða snekkjur. Búnaðurinn skapar On-Waves sérstöðu á markaði. Framþróun On-Waves, með tilkomu On-Waves Access Unit, hefur gefið félaginu möguleika á því að sækja inn á nýja markaði sem áður fyrr voru ekki aðgengilegir. On-Waves þjónustar allt frá stærstu einkasnekkju í heimi, stærstu skemmtiferðaskipum, millilandaferjum, til flutningsskipa.

On-Waves stígur

stórar öldur

On-Waves stígur

stórar öldur

Kristinn Ingi Lárusson framkvæmdastjóri On-Waves

„Tækifærin fyrir On-Waves eru mörg, heildarmarkaður sem við sækjum á er í kringum 150 þúsund skip en af því eru ekki nema rétt um 320 skemmtiferðaskip og í kringum 67 þúsund fraktskip.“

„Félagið heldur áfram að sækja á nýja markaði með samstarfsaðilum sínum og teljum við að fjöldi skipa með þjónustu On-Waves muni aukast nokkuð á milli áranna 2015 og 2016,“ segir Kristinn Ingi Lárusson, framkvæmdastjóri On-Waves, dótturfélags Símans, þegar hann gerir upp síðasta ár.

„Félagið gerði stóra samninga við alþjóðleg fjarskiptafyrirtæki á sviði gervihnattaþjónustu sem þjónusta olíuiðnaðinn í lok árs 2014. Vonir voru bundnar við að samningurinn myndi gefa vel af sér á árinu 2015. Gríðarlegar lækkanir á olíuverði á árinu 2015 fólu í sér aðhaldsaðgerðir í olíuleit og borunum sem endurspeglaðist í notkun á þjónustu félagsins á þessum nýju mörkuðum,“ segir hann. „Skipin voru kölluð inn og fóru ekki aftur út. Frávikin í tekjum má því að miklu leyti skýra með því að búnaðurinn var seldur en hann hefur ekki verið settur upp og nýttur.“

Hvaða möguleika á On-Waves á alþjóðlegum markaði?

„Fyrirtækið var upphaflega stofnað til að þjónusta skemmtiferðaskip og ferjur en hefur stækkað jaðarinn. Markaðshlutdeild On-Waves hefur haldið áfram að aukast þegar litið er til minni skipa, til dæmis iðnaðarskipa við olíuvinnslu sem og fraktskipa. Hins vegar hefur markaðshlutdeild félagsins hlutfallslega minnkað þegar litið er til stærri skipa, en sá markaður skipar engu að síður stóran sess í okkar rekstri, bæði nú sem og til framtíðar. On-Waves starfar við hlið nokkurra stærstu gervihnattaþjónustuaðila á sjó í heiminum og hefur það samstarf þegar opnað dyr inn á nýja markaði,“ segir Kristinn Ingi.

„On-Waves á því töluverða möguleika. Við höfum sótt til að mynda enn meir inn á flutningaskipamarkaðinn. Í lok árs 2015 gerðum við t.a.m. sölusamning við alþjóðlegt félag um nokkur hundruð skip. Þetta er stærsti samningur On-Waves, litið til fjölda skipa, og tekjumöguleikarnir eru töluverðir.“

Hvað hefur búnaður On-Waves fram yfir búnað keppinautanna?

„Stærðina. Búnaðurinn er svo lítill. Hann er rétt 15x20 sentímetrar. Þetta er lítil símstöð sem afkastar sama og stærri búnaður sem kostar margfalt meira. Við sem vinnum með fjarskipti á sjó erum bundin af sambandinu í gegnum gervihnetti, sem eru allt frá 160 til 35 þúsund km fjarlægð frá jörðu. Búnaðurinn okkar getur unnið með flestum sendum, burtséð frá þeirri bandbreidd sem er í boði og nýtur þar af leiðandi ákveðinnar sérstöðu. Það skiptir ekki máli hvaða tækni er að baki,“ segir Kristinn Ingi.

„Tækifærin fyrir On-Waves eru mörg, heildarmarkaður sem við sækjum á er í kringum 150 þúsund skip en af því eru ekki nema rétt um 320 skemmtiferðaskip og í kringum 67 þúsund fraktskip! Ef við náum að fylgja nýgerðum samningi okkar eftir munum við þjónusta fyrirtæki sem er á við margfaldan íslenska flotann. Þetta eru gríðarlega mörg skip. Þótt samningurinn sé stór er hlutfallið lítið. Við stígum stórar öldur hjá On-Waves. Hvert félag hefur mörg skip undir og hver samningur sem landað er því stór,“ segir Kristinn Ingi og segir fjarskiptin á sjó því afar spennandi markað.

„Þá er tæknileg framþróun í farsímaþjónustu um borð í skipum afar hröð. Bilið á milli þjónustu í landi og á sjó minnkar frá degi til dags. On-Waves ætlar sér að verða leiðandi fyrirtæki í farsímaþjónustu um borð í skipum um heim allan og brúa bilið milli lands og sjávar.“